Gísli Jóhann Grétarsson
Tónskáld og stjórnandi
Gísli Jóhann Grétarsson (1983), tónskáld og stjórnandi. Gísli er fæddur og uppalinn Akureyringur en býr og starfar í Reykjavík. Hann hefur lagt áherslu á óperusmíðar og þróun þessa sígilda og stærsta forms tónlistarsögunnar, sem einkennist af þjóðsögum og ævintýrum. Öll tónverk hans bera þessa merki, einnig þau sem samin eru fyrir önnur form en óperu. Gísli byrjaði á 6. aldursári að læra á klassískan gítar við Tónlistarskólann á Akureyri. Það leiddi síðar til framhaldsnáms í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Þaðan lauk hann mastersnámi í tónsmíðum, árið 2012, með hljómsveitarstjórnun sem annað aðalfag. Aðal kennarar Gísla voru prófessorarnir Jan Sandström (tónsmíðar), Hans-Ola Ericson (orgeltónsmíðar), Erik Westberg (kórstjórnun) og Petter Sundkvist (hljómsveitarstjórnun). Verk eftir Gísla hafa verið flutt á öllum Norðurlöndunum, víða í Evrópu, Englandi, Ástralíu og Bandaríkjunum. Á síðasta ári, 2016, má helst nefna frumsýningu á kammeróperunni Team Player í Osló sem flutt var í maí 2016 fyrir fullu húsi hvert kvöld og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Í júní sama ár var einnig íslensk flautusónata frumflutt af Hafdísi Vigfúsdóttur og Kristjáni Karli Bragasyni á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði. Í byrjun september 2017 var hljóðuppsetningin VOICELAND frumflutt á A! gjörningahátíðinni á Akureyri. Verkið var flutt af kammerkórnum Hymnodiu, leikstjórn var í höndum þýska leikstjórans Mareike Dobewall, búningar og sviðshönnun gerð af norska leikmyndahönnuðinum Ylva Owren. Næstu stóru verkefni eru ný kammerópera fyrir Operakollektivet í Osló, Cabaret sýning fyrir EV&EC í Vänersborg, Svíþjóð, og nýr orgelkonsert fyrir Eyþór Inga Jónsson. Á árunum 2012-2017 starfaði Gísli sem kórstjóri, hljómsveitarstjóri og tónskáld í Noregi, ásamt því að vera reglulega með æfingardaga fyrir kóra. Eftir 11 ára dvöl í Skandinavíu flutti Gísli tilbaka til Íslands í janúar 2018 og er nú stjórnandi Jórukórsins á Selfossi og Ár kórsins í Reykjavík.