Kammeróperan er nýstofnað tónlistarfélag á Íslandi. Markmið Kammeróperunnar er að auka framboð á smærri óperusýningum, gera upplifun áhorfenda óformlegri en tíðkast hefur og óperu aðgengilegri fyrir breiðari áheyrendahóp hérlendis.
Stofnendur Kammeróperunnar eru Eggert Reginn Kjartansson, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Kristín Sveinsdóttir og Unnsteinn Árnason. Öll stunduðu þau nám í klassískum söng í Vínarborg en eru nú búsett hérlendis og vilja taka virkan þátt í að efla óperulistformið á Íslandi.
Fyrsta óperuuppfærsla Kammeróperunnar var Óperukvöldverður í Iðnó - Così fan tutte eftir Mozart í október 2022. Sýningin hlaut mikið lof áheyrenda og seldist upp á bæði kvöldin. Aukasýningar voru haldnar í Gamla bíó í febrúar 2023 og seldist einnig upp á bæði kvöldin.
Önnur uppfærsla Kammeróperunnar var Ævintýraóperan Hans og Gréta í leikstjórn Guðmundar Felixsonar í nýrri íslenskri þýðingu Bjarna Thors. Sýningin fékk 4 1/2 stjörnu í Morgunblaðinu sem og 2 Grímu tilnefningar: barnasýningu ársins og söngvari ársins (Eggert R. Kjartansson).
Kammeróperan fékk Grímuna 2023 fyrir “Sprota ársins” ásamt öðrum verkefnum sem tilheyra óperugrasrótinni.