Jóna G. Kolbrúnardóttir

Sópran

Jóna G. Kolbrúnardóttir var ung að árum þegar hún hóf að syngja og hefur sungið í ýmsum kórum bæði sem meðlimur og einsöngvari. Hún lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2014 undir leiðsögn Hörpu Harðardóttur. Haustið 2014 hélt hún í framhaldsnám til Vínarborgar. Þar lauk hún sumarið 2018 Bakkalárgráðu við Tónlistarháskólann undir leiðsögn Univ. Prof. Gabriele Lechner. Jóna hefur tekið þátt í ýmsum meistaranámskeiðum m.a. hjá Anne Sofie von Otter, Christine Schäfer og Stephan M. Lademann. Jóna hefur hlotið ýmsa styrki fyrir framúrskarandi árangur í söng meðal annars úr Tónlistarsjóði Rótarýs á Íslandi og einnig í Vínarborg. Hún útskrifaðist með meistaragráðu vorið 2021 frá Óperu Akademíunni við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn undir handleiðslu Helene Gjerris og Susanna Eken. Jóna hefur verið sýnileg í tónlistarlífinu hérlendis síðustu ár. Hún hefur komið fram sem einsöngvari á þónokkrum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands en einnig með nokkrum helstu kórum landsins. Jóna fór með frumraun sína hjá Íslensku Óperunni sem Gréta í óperunni “Hans og Gréta” árið 2018. Haustið 2022 söng hún annað hlutverk sitt hjá ÍÓ, hlutverk Önnu í óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason. En einnig hefur hún komið fram á tvennum Kúnstpásu tónleikum á vegum Íslensku óperunnar. Hún fór með sitt fyrsta hlutverk við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn haustið 2020, þar sem hún söng Papagenu í Töfraflautunni eftir Mozart. Jóna er einn af stofnendum Kammeróperunnar sem er nýstofnað óperufélag á Íslandi. Markmið Kammeróperunnar er að skapa vettvang fyrir smærri óperuverkefni. Jóna syngur einnig í Kammerkvartettnum á vegum félagsins sem hefur nú þegar komið mikið fram í tónlistarlífinu á Íslandi. Hún skipulagði og söng hlutverk Despinu í sýningu Kammeróperunnar, Così fan tutte - Óperukvöldverður. En sú sýning sló í gegn meðal áheyrenda. í desember s.l. söng hún hlutverk Grétu í Ævintýraóperunni Hans og Grétu í Tjarnarbíó í uppsetningu Kammeróperunnar. 

Previous
Previous

Unnsteinn Árnason

Next
Next

Kristín Sveinsdóttir