Páll Palomares

Fiðluleikari

Páll Palomares er einn af fremstu fiðluleikurum landsins. Hann hóf fiðlunám sex ára gamall undir handleiðslu foreldra sinna, Unnar Pálsdóttur og Joaquín Palomares. Hann gegnir nú stöðu leiðara 2. fiðlu í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áður gegndi hann sömu stöðu hjá Randers Kammerorkester í Danmörku.

Hann hefur leikið fjölda einleikskonserta með hljómsveitum á íslenskri og erlendri grundu og ber þar hæst að nefna Sibelius- og Tchaikovski´s fiðlukonserta með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Brahms fiðlukonsert með Sinfóníuhljómsveit Árósa, Beethoven konsert með Sinfóníuhljómsveit í Torrevieja, Mozart með Orquesta Sinfónica de la Región de Murcia og Árstíðirnar eftir Vivaldi með Orchestra Femminile Italiana. Páll er jafnframt virkur í kammertónlist og hefur haldið tónleika víða í Evrópu; á Íslandi, Spáni, Þýskalandi, Englandi, Ítalíu, Frakklandi, Búlgaríu, Færeyjum, Danmörku og Hollandi.

Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun á ferli sínum. Hann var sigurvegari íslensku keppninnar ,,Ungir einleikarar” árið 2007, hlaut verðlaun í alþjóðlegu keppninni ,,Danish String Competition” árið 2014 auk fjölda annarra verðlauna í keppnum Konunglega Tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn. Páll hefur sótt masterklassa hjá mörgum af virtustu fiðluleikurum heims. Meðal þeirru eru Guilles Apap, Pekka Kuusisto, Noah Bendix-Balgley og Nikolaj Znaider.

Hann lauk meistaragráðu og síðar sólistanám við Konunglega Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn árið 2018 undir handleiðslu fiðluleikarans Serguei Azizian. Hann lauk einnig bakkalárgráðu í hinum virta Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín árið 2013. Kennari hans var Prof. Ulf Wallin.

Áður en Páll hóf námsferil sinn erlendis lauk hann námi við Tónlistarskóla Kópavogs og Listaháskóla Íslands þar sem hann naut leiðsagnar Margrétar Kristjánsdóttur og Auðar Hafsteinsdóttur.

Hann er meðlimur og einn af stofnendum Kordo kvartettsins sem hefur notið mikilla vinsælda hérlendis síðan 2020.

Hann leikur á fiðlu smíðuð af Nicolas Gagliano, ca. 1761.

Previous
Previous

Lilja Guðmundsdóttir

Next
Next

Pétur Oddbergur Heimisson