Hrafnkell Orri Egilsson
Sellóleikari
Hrafnkell Orri Egilsson hefur verið fastráðinn sellóleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2002 og er meðlimur í Kordo kvartettinum og Kammersveit Reykjavíkur. Hrafnkell Orri stundaði nám í sellóleik hjá Gunnari Kvaran við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Tónlistarháskólann í Lübeck í Þýskalandi hjá Ulf Tischbirek og lauk þaðan Diplom-prófi árið 2002. Hann var einnig nemandi Jean-Marie Gamards við Conservatoire national supérieur í París um tíma. Hrafnkell Orri var styrkþegi Minningarsjóðs Jean-Pierre Jacquillat árið 2000. Veturinn 2000–2001 var Hrafnkell Orri fastráðinn sellóleikari við Fílharmoníusveitina í Lübeck. Hrafnkell hefur verið meðlimur í Kammersveit Reykjavíkur frá árinu 2002 og hefur reglulega komið fram sem einleikari með sveitinni, nú síðast í sellókonserti eftir Vivaldi á jólatónleikum hennar árið 2018. Hann var einnig um tíma meðlimur í kvartetti Kammersveitarinnar sem m.a. flutti alla strengjakvartetta Jóns Leifs á Listahátíð 2008 og hljóðritaði til útgáfu í kjölfarið.
Hrafnkell stofnaði ásamt félögum sínum Kordo kvartettinn árið 2018 sem hefur verið mikilvirkur í tónleikahaldi undanfarin misseri. Ásamt því að leika með hinum ýmsu tónlistarhópum hefur Hrafnkell Orri á síðustu 20 árum fengist við útsetningar af ýmsu tagi, til að mynda fyrir salonhljómsveit sína L’amour fou, en sveitin gaf út útsetningar hans á geislaplötunni Íslensku lögin árið 2005. Hrafnkell hefur einnig útsett mikið fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en af verkefnum þar má nefna tónleikana Manstu gamla daga árið 2006, Ég veit þú kemur! árið 2011 og Klassíkina okkar.