Elena Postumi
Tónlistarstjórn
Elena Postumi hóf píanónám sitt 5 ára gömul í Róm á Ítalíu þar sem hún ólst upp. Þaðan lá leið hennar í St. Cecilia Konservatoríuna í sömu borg þar sem hún hélt áfram píanónámi meðfram tónsmíðanámi og námi í ljóðasöngsmeðleik. Árið 2017 flutti hún til Leipzig þar sem hún hélt áfram námi sínu í píanóleik og ljóðasöngsmeðleik við Tónlistarháskólann ,,Felix Mendelssohn-Bartholdy’’ undir leiðsögn Alexanders Schmalcz. Hún lauk þaðan ,,Meisterklasse’’ prófi með hæstu einkunn árið 2021 með hljómsveitarstjórn sem aukafag. Árið 2018 hlaut hún verðlaun sem besti meðleikari í Lortzing ljóðasöngskeppninni í Leipzig. Meðfram tónlistarnámi sínu lauk Elena bakkalárgráðu frá La Sapienza háskólanum í Róm í bókmenntafræði. Sem virkur flytjandi ljóðasöngs og kammertónlistar hefur Elena komið fram á tónleikum víðsvegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. Áhugi Elenu á söngröddinni leiddi Elenu inn í heim óperunnar og starfaði hún sem fastur meðleikari og aðstoðarhljómsveitarstjóri við Staatstheater Darmstadt frá 2020-2023. Auk þess hefur hún starfað reglulega með Íslensku Óperunni frá árinu 2018. Tónverk Elenu hafa verið flutt í Evrópu og í Bandaríkjunum. Leikárið 2022-23 var frumflutt tónlistar-leikverk hennar “Becoming Luise Büchner” við Staatstheater Darmstadt. Verkið fékk afar góða dóma, meðal annars frá Frankfurter Allgemeine Zeitung sem sagði: ,, … samtímatónheimur sem flakkar á milli klassísks tónmáls og jaðar…’’. Á Íslandi frumflutti Ungfónían og Pétur Björnsson fiðlukonsert hennar árið 2019 og árið 2020 frumflutti Elja kammersveit og Björg Brjánsdóttir flautukonsert hennar, “Corifeo delle correnti”. Elena starfar nú sem kennari í hljóðfærasetningu, ljóðasöng og kammermúsík við Akademie für Tonkunst í Darmstadt ásamt því að vera í stjórna hljómsveit skólans.